


Síðustu ár hafa ýmsir aðilar sýnt því áhuga að hefja sjókvíaeldi í Eyjafirði og í fjörðunum við Tröllaskaga, enda eru aðstæður afar heppilegur til slíkrar atvinnustarfsemi sé horft til ýmissa þátta, s.s. veðurfars, öldufars og hafstrauma. Þannig hafa ýmis fyrirtæki fengið úthlutað starfsleyfum út frá áætlunum um framleiðslu á þorski og ýsu út af Skjaldarvík, innarlega í Eyjafirði, laxi og til kræklingaræktar á fjórum stöðum í Eyjafirði. Hugmyndir um uppbyggingu eldis í sjókvíum hafa því verið viðvarandi og til umræðu í allnokkurn tíma.

Um okkur
Eldi á laxi hefur aukist mikið á undanförnum áratugum með tæplega 46 milljarða króna útflutningsverðmæti árið 2023, þar sem lax var meginuppistaðan, sem er um 1,5% af allri framleiðslu heimsins. Samhliða hefur störfum í fiskeldi hér á landi fjölgað verulega, en rúmlega 83% starfa í fiskeldi eru á landsbyggðinni og á árinu 2023 námu atvinnutekjur einstaklinga í fiskeldi ríflega 8,6 milljörðum króna. Miklir vaxtarmöguleikar eru fyrir atvinnugreinina á Íslandi og samkvæmt skýrslu Boston Consulting Group frá 2023, er áætlað að umfang lagareldis á Íslandi geti orðið um 245.000 tonn og verðmætasköpun áætluð um 242 milljarðar íslenskra króna árið 2032.
Áætlanir Kleifa fiskeldis byggja á áformum um uppbyggingu á að minnsta kosti 20.000 tonna framleiðslu af laxi á ári á landi og í fjörðum á Tröllaskaga. Stefnt er að setja framleiðsluna upp með eftirfarandi hætti:
Siglufjörður: Seiðaeldi og slátrun á fullvaxta löxum úr fjörðum á Tröllaskaga og í Eyjafirði, þar sem núverandi fasteignir og innviðir eru nýttir (höfn, tankar, skemmur).
Ólafsfjörður: Laxinn er alinn í landeldi til að minnka tíma í sjókvíum; kvíar staðsettar undir sjávarmáli í hluta af vannýttri höfn bæjarins sem nýtist einnig fyrir brunnbáta.
Siglufjörður, Héðinsfjörður, Ólafsfjörður og Eyjafjörður: Sjókvíar í fjörðunum.

Sé byggt á greiningum um uppbyggingu laxeldis á Vestfjörðum og áætlunum sambærilegra verkefna má gera ráð fyrir að verkefnið muni skapa hátt í 170-180 störf á svæðinu og mikil áhersla verður lögð á að gera þetta í sátt við umhverfið. Forsvarsmenn Kleifa eru meðvitaðir um að forsenda þess að atvinnugreinin fái að blómstra og að nærumhverfið njóti góðs af, þá þurfi þau sveitarfélög þar sem fiskeldi fer fram og áform eru um að byggja upp atvinnugreinina, að fá sanngjarnt afgjald af auðlindinni sem sveitarfélögin og samfélög þeirra geti nýtt til innviðauppbyggingar. Nærliggjandi sveitarfélögum verður því afhentur eignarhlutur í Kleifum til að styðja við byggð og stuðla að hagvexti.
Verkefnið er leitt af Róberti Guðfinnssyni, einum af eigendum Hólshyrnu ehf., og stofnanda Genís hf., með áratuga reynslu af sjávarútvegi og fiskeldi, og Árna Helgasyni, verktaka í Ólafsfirði, en báðir hafa þeir staðið að mikilli atvinnuuppbyggingu á Norðurlandi.
Verkefnastjóri Kleifa er Vigdís Häsler.
Meginmarkmið Kleifa fiskeldis eru að:
Byggja upp arðbæran atvinnurekstur sem laðar að fjárfesta og fjármagn.
Styrkja atvinnustarfsemi og byggð á Norðurlandi.
Nýta þá innviði sem eru til staðar í bæjarfélögunum til að flýta uppbyggingu og auka hagkvæmni verkefnisins.
Þróa rekstrarfyrirkomulag sem getur myndað sátt um sjókvíaeldi til langs tíma, samfélaginu til hagsbóta.

Sjálfbært samfélag
Fiskeldið
Kleifar fiskeldi mun byggja á bestu mögulegu tækni til að hámarka velferð í eldinu. Þannig getum við framleitt sjálfbæra og heilsusamlega afurð.
Umhverfið
Kleifar fiskeldi mun starfa í sátt við umhverfið enda er það skylda okkar að ganga vel um auðlindir okkar. Við munum lágmarka umhverfisspor framleiðslunnar með því að nýta bestu fáanlegu tækni og þekkingu hverju sinni.
Samfélag og byggð
Kleifar fiskeldi byggja á þeirri grundvallar hugsjón að samfélag og byggð eigi að njóta þess að hýsa starfsemi fyrirtækisins. Það er okkur mikilvægt að bjóða gott starfsumhverfi og að samfélagið og byggðin dafni samhliða uppbyggingu fiskeldisins.

Um svæðið
Norðurland eystra nær yfir 22.735 km²; frá Tröllaskaga í vestri, yfir í Eyjafjörð og Þingeyjarsýslur austur til Sandvíkurheiðar á milli Bakkaflóa og Vopnafjarðar. Á svæðinu eru þrettán sveitarfélög með liðlega 30.000 íbúa. Sveitarfélögin sem um ræðir og munu liggja að fyrirhuguðu framkvæmdarsvæði eru; Fjallabyggð, Dalvíkurbyggð, Svalbarðsstrandarhreppur, Hörgársveit, Grýtubakkahreppur, Eyjafjarðarsveit og Akureyrarbær. Á árunum 2019-2024 hefur íbúum fjölgað mest á Akureyri, sem og í Hörgár- og Eyjafjarðarsveit.
Á Norðurlandi eystra er mikil breidd í atvinnulífi, sem er einn helsti styrkleiki atvinnulífsins í landshlutanum og skapar forsendur fyrir öflugu atvinnuþróunar- og nýsköpunarstarfi en landbúnaður og sjávarútvegur eru undirstöðuatvinnugreinar á svæðinu. Á Akureyri, við Eyjafjörð hefur síðan byggst upp öflug þekkingarstarfsemi við Háskólann á Akureyri, þar sem m.a. er starfrækt mikilvæg kennsla í sjávarútvegsfræðum og fiskeldi, að auki starfrækir Háskólinn á Hólum öfluga fiskeldis og fiskalíffræðideild.
